Vitnisburður minn um Mormónsbók

Eftir Bowei Fu

Bowei Fu og fjölskyldan hans

Ég og eiginkona mín, Mei, erum ný í kirkjunni. Það er margt sem við enn ekki vitum. Við höfum í raun nýlega hafið lestur Mormónsbókar.

Er við lásum Fyrsta Nefí, þá veittum við því athygli að hugtakið „trú“ kom þar margsinnis fyrir. Að sögn Nefís, þá yfirgaf Lehí faðir hans Jerúsalem og hélt út í óbyggðirnar.  Með honum voru eiginkona hans og fjórir synir, Laman, Lemúel, Sam og Nefí. Þetta var erfið ákvörðun, því þau sögðu skilið við landið sitt og allar eigur. Lehí gerði þetta, því trú hans var sterk á Drottin. Laman og Lemúel mögluðu við föður sinn, því þá skorti trú á Drottin. Nefí, yngsti bróðirinn, var aftur á móti hlýðinn og baðst fyrir í trú.

Sökum trúar naut Nefí handleiðslu andans, svo honum tókst að drepa Laban að boði Drottins og ná í látúnstöflurnar.

Sökum trúar var Nefí leystur á undursamlegan hátt, eftir að bræður hans höfðu komið á hann böndum.

Sökum trúar smíðaði Nefí skip á þann hátt sem Drottinn sýndi honum.

Sökum trúar lægði bæn Nefís storminn, svo honum tækist að sigla með fólk sitt yfir hafið til fyrirheitna landsins.

Ég veit að trú á Drottin er kjarni alls og hún hefur vissulega leitt til jákvæðra breytinga fyrir fjölskyldu mína, frá þeirri stundu er við ákváðum að iðka trú. Við vorum skírð 23. desember á síðasta ári. Sumir vina okkar spurðu: „Hvernig getið þið komist svona fljótt að þessari niðurstöðu?“ Sannleikurinn er sá að það er sökum trúar. Ég minnist þess að trúboði einn sagði trú vera líka sáðkorni. Vinir okkar í kirkjunni hjálpuðu  okkur að gróðursetja þetta sáðkorn er við komum fyrst og það hefur vaxið dag hvern.

Skírn

Ég man enn vel eftir því þegar við komum fyrst í samkomuhús kirkjunnar. Við vorum afar hrifin. Byggingin var svo fábrotin og fólkið svo vingjarnlegt. Á sakramentissamkomu hlustuðum við á svo marga yndislega söngva og hjartnæmar ræður. Að samkomu lokinni, komu margir bræður og systur til okkar og heilsuðu okkur innilega og veittu okkur ýmsa aðstoð. Þau sýndu okkur til að mynda hvar Barnafélagið væri og fylgdu okkur síðan í námsbekki okkar, svo við fyndum að við værum velkomin. Gæska þeirra og ráðvendni varð til þess að við urðum þegar í stað hugfangin af kirkjunni! Frá þeirri stundu tókum við að þróa trú á Drottin, því við trúðum að gæska þeirra og ráðvendni væru frá honum komin. Við vildum verða eins og þau voru. Við vildum njóta kærleika og blessana Drottins. Hver meðlimur deildar okkar hefur verið okkur góð fyrirmynd og hjálpað okkur að þróa trú.

Ég man enn eftir því er trúboði nokkur sendi mér skilaboð. Hann hvatti mig til að lesa Mormónsbók dag hvern: Hann sagði að jafnvel fimm mínútur væru gagnlegar. Frá þeim degi höfum við lesið bókina, kannski ekki dag hvern, en áhrif hennar vekja þegar með okkur trú. 

Sökum trúar hættum við að drekka kaffi og grænt te, sem í mörg ár voru eftirlætis drykkir okkar.

Sökum trúar reynum við stöðugt að hafa stjórn á skapi okkar. Í hvert sinn sem börn okkar sýna slæma hegðun hjálpum við hvort öðru að halda rósemi, því við teljum að það sé vilji Drottins. Drottinn veit að við getum orðið guðlegir foreldrar og því hefur hann gefið okkur tvær dýrmætar gjafir – syni okkar.

Sökum trúar stjórnar elsti sonur okkar, Victor, kvöldbænum okkar, í hvert sinn áður en við förum í háttinn. Hann nýtur þess innilega og minnir okkur jafnvel stundum á að biðja, ef það gleymist.

Sökum trúar förum við í kirkju hvern sunnudag. Í hvert sinn eftir samkomur getum við skynjað smávægilegar framfarir hjá fjölskyldunni.  

Bæði ég og eiginkona mín erum frá lítt trúuðum fjölskyldum. Án Mormónsbókar hefðum við aldrei getað vitað að Guð hefur slíka dásamlega áætlun fyrir hvert okkar. Ef við iðrumst getum við hreinsast af öllum syndum okkar og dvalið hjá honum einhvern daginn. Án Mormónsbókar hefðum við aldrei getað sigrast á óttanum við dauðann.  Án Mormónsbókar hefðum við aldrei vitað að við gætum innsiglast saman sem fjölskylda að eilífu. Við höfum aldrei áður notið slíkrar hamingju og öryggis. Ég fæ í raun geint ljósið frammi fyrir okkur. Það vekur okkur öllum von.

Þetta hefur verið langt ferðalag og við höfum fundið heimili okkar. Við vitum að við höfum valið rétt fyrir fjölskylduna. Ég er hér til að vitna um að Mormónsbók er sönn.