16. apríl 2020

Viðbrögð við COVID-19

Auk skjalsins, „Leiðbeiningar um mikilvægar helgiathafnir, blessanir og annað tengt kirkjustarf,“ má nota þetta skjal til að svara spurningum um stjórnsýslu kirkjunnar í COVID-19 heimsfaraldri.

Þessi skjöl eru gefin út til að bregðast við truflunum á verklagsreglum og viðburðum meðlima kirkjunnar af völdum heimsfaraldursins COVID-19.  Þau ætti að nota til leiðbeiningar, svo lengi sem þessi heimsfaraldur varir og opinberar takmarkanir gilda um kirkjusamkomur og opinber mannamót í einhverju tilteknu landi eða landshluta. Frekari leiðsagnar mætti vænta síðar.

Biskupar og stikuforsetar ættu að vera vökulir og á verði gagnvart aðstæðum og reglugerðum á staðnum. Þeir ættu að hvetja kirkjumeðlimi til að hlíta lögum. Í öllu neðangreindu, er varðar spurningar og svör, skal gæta þess vandlega að huga að eftirfarandi:

  • Félagslegri fjarlægð, handþvotti og öðru því verklagi sem lýst er í „Preventative Measures for Members [Fyrirbyggjandi aðgerðir fyrir meðlimi]“ á newsroom.churchofjesuschrist.org/article/coronavirus-update#preventative-measures

  • Reglum og verklagi um persónulega einangrun eins og leiðbeint er af læknum og leiðtogum stjórnvalda.

  • Fyrirmælum, reglugerðum og leiðbeiningum stjórnvalda á hverjum stað fyrir sig.

Frekari skjöl varðandi COVID-19 eru tiltæk á newsroom.ChurchofJesusChrist.org

Ef upp koma einkar erfiðar spurningar, ættu stikuforsetar að hafa samband við svæðisforsætisráð sitt.

I. Prestdæmisvígslur og fjölskylduviðburðir

Þjónusta sakramentis

Mega prestdæmishafar þjónusta sakramentið á heimilum annarra deildarmeðlima, þar sem ekki er verðugur prestur eða Melkísedeksprestdæmishafi?

Að öllu jöfnu, já. Sem stendur takmarka stjórnvaldstilskipanir eða staðbundnar reglugerðir þessa iðju í mörgum löndum og borgum. Þar til nánar verður tilkynnt á þessum stöðum, ættu prestdæmishafar ekki að fara inn á heimili kirkjumeðlima, sem ekki eru skyldmenni, til að þjónusta sakramentið. Á þessum tíma geta meðlimir notið blessunar af því að læra  sakramentisbænirnar og einsetja sér að lifa eftir þeim sáttmálum sem þeir hafa gert og beðið fyrir þeim degi að þeir fái meðtekið það persónulega, réttilega þjónustað af prestdæminu.

Patríarkablessanir

Geta patríarkablessanir verið áfram eins og þær eru tímasettar?

Fresta ætti patríarkablessunum tímabundið. En þar sem mögulegt er, ættu þeir sem búa sig undir að þjóna í trúboði að fá patríarkablessun áður en þeir hefja trúboðsþjónustu.

Hjónavígslur, veisluhöld og útfarir

Heimila nýju leiðbeiningarnar brúðkaup (þ.m.t veisluhöld) og útfarir í samkomuhúsum?

Þar sem stjórnvöld takmarka með reglugerðum, ætti ekki að hafa brúðkaup, veisluhöld og útfarir í samkomuhúsum. Eins og lög leyfa, geta biskupar og stikuforsetar tekið þátt í brúðkaupum í viðeigandi umhverfi, þar sem hægt er að halda félagslegri fjarlægð. Einnig er hægt að nota fjarbúnað, til að leyfa fjölskyldu og vinum að fylgjast með athöfninni. Leiðtogar og meðlimir ættu að fara eftir fyrirmælum, reglugerðum og leiðbeiningum stjórnvalda.

Eins og lög leyfa, geta biskupsráð og stikuforsætisráð gegnt embætti við jarðsetningu. Einnig er hægt að nota fjarbúnað, til að leyfa fjölskyldu og vinum að fylgjast með athöfninni og til að taka hana upp. Ef þess er óskað, er heimilt að hafa stærri minningarathöfn síðar, þegar aðstæður leyfa.

Nafngjöf og blessun barns

Leyfa þessar leiðbeiningar barnsblessun á heimilinu?

Já. Þegar biskupinn hefur heimilað það, má blessunin fara fram á heimili fjölskyldunnar í stað kirkjusamkomu. Hún ætti að vera réttilega tilkynnt.

II. Stjórnsýsla deildar og stiku

Fundir og viðtöl

Er hægt að hafa fundi biskupsráðs, stikuforsætisráðs, háráðs, aðra fundi forsætisráða og viðtöl í eigin persónu?

Þetta eru ákvarðanir sem ætti að taka á staðnum út frá öllum tiltækum upplýsingum. Hægt er að halda fundi og viðtöl með fjarbúnaði, þegar mögulegt er.

Skráning mætingar á sakramentissamkomu

Hvernig verður mæting skráð í skýrslur, útreiknuð og tilkynnt, þar sem samkomur eru afboðaðar?

Mæting verður ekki tilkynnt, því sunnudagssamkomur hafa verið afboðaðar tímabundið.

Notkun bygginga og húsrýmis

Er áfram hægt að nota íþróttasvæði og byggingar? Mega unglingar koma saman til að spila fótbolta utandyra á völlum við samkomuhús?

Athafnir deildar og stiku eru afboðaðar tímabundið. Einstaklingar ættu að fara eftir „Preventative Measures for Members [Fyrirbyggjandi aðgerðir fyrir meðlimi].“ Meðlimir ættu að fara eftir fyrirmælum, reglugerðum og leiðbeiningum stjórnvalda.

Mega aðrar athafnir, eins og íþróttaæfingar, kóræfingar og píanókennsla vera áfram?

Athafnir eins og íþróttaæfingar, kóræfingar og píanókennsla eru afboðaðar tímabundið. Meðlimir ættu að fara eftir fyrirmælum, reglugerðum og leiðbeiningum stjórnvalda.

Hvað á að gera varðandi meðferðarfundi og sjálfsbjargarbekki sem hafðir eru vikulega í kirkjubyggingum? 

Þá ætti að hafa með fjarbúnaði.

Á að loka ættfræðisöfnum í stikumiðstöðum?

Já. Gestir ættu að nýta sér tæknina frá heimilum sínum.

Trúarskóli eldri og yngri deilda

Sjá CES leiðbeiningar um viðbrögð við COVID-19, fyrir allar spurningar.

Tíund og framlög

Munu biskupar áfram taka við tíund og framlögum í eigin persónu og skrá færslur í vikunni eða ætti það einungis að fara fram rafrænt á þeim tíma sem samkomur eru afboðaðar?

Þegar mögulegt er, ættu meðlimir að greiða framlög sín á netinu. Meðlimir sem hafa enga leið til að greiða framlög rafrænt, geta áfram afhent þau einhverjum í biskupsráði í eigin persónu, eða sent þau í pósti í formerktum póstumslögum, nema svæðisforsætisráð telji þá framkvæmd óviðeigandi. Beina ætti frekari spurningum til svæðisforsætisráðs. 

FSY ráðstefnur

Verða FSY ungmennaráðstefnur haldnar í sumar (2020)?

Þeim FSY ráðstefnum sem ráðgert var að hafa í Bandaríkjunum og Kanada árið 2020, hefur verið frestað til 2021. Stikum sem boðið var að taka þátt í TSÆ ráðstefnum árið 2020, munu nú mæta árið 2021. Uppfærð áætlun FSY ráðstefna sem haldnar eru í Bandaríkjunum og Kanada 2021–23, mun fljótlega koma út. Endurgreiðslur munu sjálfkrafa fara til þeirra sem hafa skráð sig. Ungmennum í stikum, sem boðið er árið 2020 og uppfylla enn aldurskröfur, verður boðið að koma á FSY ráðstefnu árið 2021. Utan Bandaríkjanna og Kanada munu svæðisforsætisráð veita leiðbeiningar um hvort FSY ráðstefnur verða haldnar og þá í samræmi við COVID-19 leiðbeiningar sem stjórnvöld setja fram í samfélögum sínum og löndum. Frekari upplýsingar um FSY ráðstefnur eru tiltækar á FSY.ChurchofJesusChrist.org.

III. Trúboðsþjónusta

Fyrirhugað trúboð

Eiga prestdæmisleiðtogar heimasvæða að vinna áfram trúboðsumsóknir? Verða trúboðar áfram kallaðir í fyrirsjáanlegri framtíð.

Já.

Geta biskupar og stikuforsetar tekið persónuleg viðtöl við verðandi trúboða?

Já, en viðtöl við tilvonandi trúboða, ættu að fara fram með fjarbúnaði, augliti til auglitis, alltaf þegar mögulegt er.

Trúboðsstarf

Geta trúboðar áfram kennt fólki í eigin persónu, þegar af þeim er krafist að halda sig í íbúðum sínum?

Nei. Trúboðar ættu að fara eftir fyrirmælum, reglugerðum og leiðbeiningum stjórnvalda, sem og leiðsögn svæðisforsætisráðs og trúboðsforseta. Þeir mega þó áfram kenna fólki með fjarbúnaði. (Sjá myndbandaröð fyrir trúboða um kennslu með fjarbúnaði).

Geta trúboðar áfram leitað sambanda á götum úti?

Trúboðar ættu að fara eftir fyrirmælum, reglugerðum og leiðbeiningum stjórnvalda, sem og leiðsögn svæðisforsætisráðs og trúboðsforseta.

Ef trúboði er beðinn að veita einhverjum blessun sem er með einkenni kórónaveirusýkingar, ætti trúboðinn þá að veita blessunina?

Nei. Trúboðar ættu ekki að heimsækja fólk sem hefur fengið jákvæða prófniðurstöðu af COVID-19, hefur einkenni smits eða verið í sambandi við einhvern smitaðan. Þeir geta þjónað þeim með fjarbúnaði og beðið fyrir þeim.

Eiga trúboðar áfram að bjóða fram þjónustu og nota smáforritið JustServe?

Trúboðar ættu að fara eftir fyrirmælum, reglugerðum og leiðbeiningum stjórnvalda, sem og leiðsögn svæðisforsætisráðs og trúboðsforseta.

Trúboðsstarf meðlima

Getur meðlimatrúboð verið áfram?

Já, með leiðsögn stikuforseta og biskups. Trúboðsstarf meðlima er háð sömu takmörkunum heimsókna í eigin persónu og trúboðsstarf fastatrúboða, þar til aðstæður leyfa annað.

Trúboðsfundir

Getur svæðisforsætisráð sótt leiðtogafundi og svæðisfundi í trúboðsferðum?

Samkomur trúboða í eigin persónu á svæðisfundi eru afboðaðar tímabundið. Fundir geta farið fram með fjarbúnaði, eins og þörf er á.

IV. Musterisstarf

Viðtöl og virkjun musterismeðmæla

Á að hvetja meðlimi til að viðhalda gildum musterismeðmælum?

Já. Gild musterismeðmæli staðfestir verðugleika einstaklings til að fara inn í musterið, jafnvel þótt tilbeiðsla í musteri sé ekki möguleg.

Þurfa viðtöl fyrir musterismeðmæli áfram að fara fram í eigin persónu?

Nei. Meðlimir biskupsráðs og stikuforsætisráðs geta tímabundið haft musterisviðtöl með því að nota fjarbúnað, augliti til auglitis. Áfram ætti að hafa viðtöl við bæði meðlim biskupsráðs og meðlim stikuforsætisráðs.

Á að gefa út musterismeðmæli, þótt undirskriftir vanti?

Já. Meðlimir biskupsráðs geta haft viðtöl með því að nota tiltæka tækni. Eftir viðtalið, geta þeir undirritað meðmælin, tekið mynd af þeim og sent stikuritara myndina. Hann ætti síðan að afhenda viðkomandi meðlim musterismeðmælin eða senda þau með pósti. Meðlimurinn ætti að undirrita meðmælin þegar þau berast honum.

Eftir að meðlimur stikuforsætisráðs á viðtal við meðliminn, getur hann eða stikuritari virkjað þau án undirskriftar. Þegar sakramentissamkomur deildar verða aftur haldnar, ætti hver meðlimur að láta meðlim stikuforsætisráðs undirrita meðmælin sín, ef þau hafa ekki þegar verið undirrituð.

V. Fleiri spurningar

Eigum við áfram að taka þátt í blóðsöfnunum?

Já, blóðsafnanir verða starfræktar áfram, en þurfa að fara að fyrirmælum, reglugerðum og leiðbeiningum stjórnvalda á hverjum stað og verklagi blóðsafnara (Rauða krossins eða annarra). Rauði krossinn getur notað samkomuhús og bílastæði samkomuhúsa, og aðrir aðilar færanlegs rýmis, ef farið er eftir öllum fyrirmælum, reglugerðum og leiðbeiningum stjórnvalda.

Eiga leiðtogar að láta þá meðlimi vita sem gætu hafa verið í snertingu við aðra meðlimi kirkjunnar, sem annaðhvort komust í tæri við eða voru sýktir af COVID-19?

Að öllu jöfnu, já, ásamt því að leiðbeina leiðtogum og þjónandi bræðrum og systrum, sem auðvitað hefðu samband við sýkta meðlimi, sem hluta af ábyrgð þeirra. Þessum leiðtogum og þjónandi bræðrum og systrum ætti að ráðleggja að þjóna áfram, en þó með fjarbúnaði og úr fjarlægð, og fara eftir leiðbeiningunum í „Preventative Measures for Members [Fyrirbyggjandi aðgerðir fyrir meðlimi]. Meðlimir ættu að hlíta viðeigandi lögum og fara eftir fyrirmælum, reglugerðum og leiðbeiningum stjórnvalda.

Beina ætti frekari spurningum til svæðisforsætisráðs, sem getur veitt nauðsynlegar leiðbeiningar.