Æviágrip Jeffreys R. Holland forseta

„Öll ábyrgð mín er að bera vitni um Drottin Jesú Krist“

Æviágrip Jeffreys R. Holland forseta

Með sorg í hjarta, tilkynnum við að Jeffrey R. Holland forseti Tólfpostulasveitar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu andaðist þann 27. desember 2025, um kl. 3:15 að MST-tíma, úr fylgikvillum nýrnasjúkdóms, í faðmi fjölskyldu sinnar. Hann var 85 ára gamall.


„Enginn í kirkjunni [var] betri í kennslu.“ —Öldungur Quentin L. Cook


Holland forseti varð postuli 23. júní 1994. Á þeim tíma þjónaði hann sem aðalvaldhafi Sjötíu (1989–1994). Áður en Holland þjónaði í fullu starfi í kirkjunni, var hann forseti Brigham Young háskóla (1980–1989), forstöðumaður menntamála Fræðslukerfis kirkjunnar (1976–1980) og deildarforseti BYU's College of Religious Education (1974–1976). Hann hlaut B.A. gráðu í ensku og meistaragráðu í trúarfræðum frá BYU. Hann hlaut einnig meistaragráðu og doktorsgráðu í heimspeki í amerískum fræðum frá Yale.

„Mér hefur þótt vænt um Holland forseta frá þessum fyrstu dögum [sem ungur trúboði],“ sagði öldungur Quentin L. Cook í Tólfpostulasveitinni, sem var félagi Hollands forseta í trúboði þeirra í Englandi snemma á sjöunda áratug 20. aldar. Öldungur Cook sagði að jafnvel þá hefði hann tekið eftir einstakri orðahæfni hins 20 ára gamla öldungs Hollands. Öldungur Cook sagði að hann hefði „stórkostlega“ hæfileika til að kenna fagnaðarerindið og byggi fyrir „afar mikilli andlegri dýpt.“ „Hann var einstaklega góður þá og enginn í kirkjunni [var] betri í kennslu.“

Holland forseti lifði eiginkonu sína, Patriciu Terry, sem lést 20. júlí 2023. Hann lætur eftir sig þrjú börn, 13 barnabörn og nokkur barnabarnabörn.

Hann var alinn upp á heimili þar sem hann var alltaf elskaður

Að hitta Holland forseta í fyrsta sinn, var eins og að hitta einhvern sem maður hafði þekkt alla ævi. Þú fékkst þétt handtak, gott klapp á bakið, hlýtt, aðlaðandi bros og áhugasamt en einlægt „hvernig hefurðu það?“

Einlæg elska hans til annarra var bara einn af þeim eiginleikum sem gerðu þennan postula Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu svo áhrifaríkan í að boða fagnaðarerindi sonar Guðs. Holland forseti „býr yfir djúpu andríki og einstakri næmni. … [Hann er] alltaf að byggja upp fólk, lyfta fólki og laða fólk til sín,“ sagði James E. Faust forseti (1920–2007) í Æðsta forsætisráði kirkjunnar eitt sinn. „Hann hefur þá stórkostlegu hæfni að láta fólki finnast það vera hans bestu vinir.“

Holland forseti fæddist í St. George, Utah, 3. desember 1940, þeim Frank D. og Alice Bentley Holland, og Holland forseti lýsti bernsku sinni sem ljúfum, friðsælum tíma í litlu samfélagi þar sem allir þekktust. „Ég hefði ekki getað lent í vandræðum á þessum bæ ef ég hefði viljað það. Móðir mín hefði vitað það áður en ég kom heim,“ sagði hann eitt sinn.

Heimili Hollands forseta var staður þar sem kímnigáfa og einlæg ástúð í garð annarra voru í fyrirrúmi. „Ég var alltaf elskaður. En ég var elskaður á þann hátt sem ekkert barn hefði nokkurn tíma getað óskað sér meira,“ sagði hann.

Þessi ást á fólki og lífinu skilaði sér í ástríðu fyrir íþróttum í lífi hins unga Jeffreys. Hann spilaði í alls konar liðum sem saman komu í St. George, var meðlimur í fylkismeistaraliði Dixie High School í fótbolta og hafnabolta og lék í fótbolta, körfubolta, frjálsum íþróttum og hafnabolta.

„Mesta gleði lífs míns á uppvaxtarárum mínum voru íþróttirnar,“ sagði Holland forseti. Ég spilaði með hvers kyns liði sem hefði verið hægt að setja saman.“

Hann stofnaði fjölskyldu með Patriciu Terry

En hugur hans var ekki svo upptekinn af íþróttum að hann tæki ekki eftir því að Patricia Terry fagnaði á hliðarlínunni. Þau tvö byrjuðu saman í menntaskóla og giftu sig 7. júní 1963. Samband þeirra var einstakt og hjálpaði við að móta og byggja þau bæði upp í hinum ýmsu skyldum þeirra í kirkjunni.

Patricia Holland var fær söngvari, rithöfundur og ræðumaður. Holland forseti sagði þó að áhersla hennar væri alltaf á fjölskylduna – sem er sérstaklega mikilvægt þar sem hún var að ala upp þrjá unglinga á skólalóð BYU háskóla á annasömum tíma Hollands forseta sem háskólarektors.

„Ég gef Pat alltan heiður heimavígstöðvanna,“ sagði Holland forseti, sem hefur skrifað meira en tylft bóka – þar á meðal tvær með Pat. „Við vorum frekar önnum kafin, frekar snemma í lífi okkar og fannst alltaf eins og við værum beðin að gera hluti nokkrum árum áður en við vorum nógu gömul eða nógu snjöll eða nógu skynsöm til að gera þá. … Hún vann virkilega að því að gera [lífið] eðlilegt [fyrir börn okkar] og vann hörðum höndum að því að undirstrika hvað fjölskyldur ættu að gera og hvað fjölskyldur ættu að hafa og hvað foreldrar ættu að vera fyrir börn sín. … Ég stend gapandi og gleiðeygður af aðdáun yfir því að hún skuli einfaldlega stökkva fram af hvaða bretti sem var fyrir mig, fyrir kirkjuna, fyrir Drottin, fyrir börnin sín. Hún hefur alltaf gert það.“

Mynd af Holland-fjölskyldunni, nóvember 1984.
Mynd af Holland-fjölskyldunni, nóvember 1984.

Hið sama mætti segja um Holland forseta, sem vandlega skipulagði tímann með þremur börnum sínum, Matthew, Mary Alice og David. Matt sagði að „bestu minningar sínar frá barnæsku voru við matarborðið. Á hverju kvöldi voru einskonar fjölskyldukvöld, full af hlátri, hrósi, hvatningu, áhugaverðum samræðum, vitnisburðum, kennslu og kærleikstjáningu. Þú vissir alltaf að pabbi væri hamingjusamastur þegar hann var heima með fjölskyldu sinni.

Matthew Holland, sonur Jeffrey R. Holland, á aðalráðstefnu í apríl 1983. Matthew talaði til safnaðarins á prestdæmisfundinum.
Matthew Holland, sonur Jeffrey R. Holland, á aðalráðstefnu í apríl 1983. Matthew talaði til safnaðarins á prestdæmisfundinum.

Holland forseti sagði nálgun sína á góðu uppeldi vera heimaræktaða og grundvallaða. „Ef þú hefur kærleika Drottins í lífi þínu, ef þú veist að það er merking og tilgangur með lífinu og að fyrirgefningin er raunveruleg og kærleikurinn er áhrifamesta afl alheimsins – þá er miklu auðveldara að vera hamingjusamur og skapa andrúmsloft þar sem annað fólk getur verið hamingjusamt.“

Heiðursmaður, fræðimaður, diplómat – og alltaf kennari

Eldheit og óhagganleg trú hans tók fyrst að blómstra þegar hann þjónaði í trúboði fyrir kirkjuna í Englandi 19 ára gamall. Hann sagði trúboð sitt vera vendipunkt í lífi sínu, þar sem hann nærði trú sína á Guð og tók að læra ákaft og af þakklæti í Mormónsbók. Niðurstaðan varð sú að Holland forseti sagði trúboð sitt hafa „auðgað eða gjörbreytt – á góðan hátt – öllum þeim markmiðum, tilfinningum og þrám sem ég hafði nokkru sinni haft“ – þar á meðal var sú ákvörðun hans að leggja stund á kennslufræði í stað læknisfræði þegar hann snéri aftur heim til Utah.

Holland forseti hlaut í kjölfarið meistara- og doktorsgráður í amerískum fræðum frá Yale háskóla. Eftir útskrift hafnaði Holland forseti mörgum góðum tækifærum, en valdi þess í stað að snúa sér aftur að Fræðslukerfi kirkjunnar og kenna það sem hann unni mest — fagnaðarerindi Jesú Krists. Kennsla var ekki það sem hann gerði – hún var það sem hann var.

Einn af trúboðsforsetum Hollands, öldungur Marion D. Hanks (1921–2011), sagði: „Jeffrey Holland er í eðli sínu kennari. Hann er heiðursmaður, fræðimaður og diplómat – en í öllu þessu er hann kennari.“

Holland forseti hafði ekki hugmynd um að hæfileikar hans í kennslu yrðu upphafið að framtíðarverkefnum í kirkjunni. Bróðir hans, Dennis sagði: „Það eina sem Jeff langaði alltaf að gera var að kenna nemendunum í skólastofunni fagnaðarerindið. Ég var alltaf viss um að Drottinn hefði sama markmið í huga fyrir hann, en að stærð kennslustofunnar og fjöldi nemenda væri af mun stærri skala en hann sá fyrir sér.“

Kennslustofa Hollands stækkaði þegar hann varð forstöðumaður menntamála Fræðslukerfis kirkjunnar árið 1976 og var síðan skipaður níundi rektor Brigham Young háskóla árið 1980. Sem forseti leiddi hann 100.000.000 dollara fjáröflunarherferð, hjálpaði skólanum að fagna og takast á við íþróttaárangur (þar á meðal landsmeistaratitil BYU fótboltaliðsins 1984) og ávann sér virðingu margra er hann þegar hann aðstoðaði við að sefa kröftug mótmæli gegn byggingu BYU Jerúsalemmiðstöðvarinnar (lokið árið 1989).

Holland forseti starfaði sem forseti American Association of Presidents of Independent Colleges and Universities, í stjórn National Association of Independent Colleges and Universities og sem meðlimur í forsetanefnd National Collegiate Athletic Association. Fyrir starf sitt við að bæta samskipti á milli kristinna og Gyðinga var honum veitt viðurkenningin „Torch of Liberty“ frá Anti-Defamation League of B'Nai B'rith. Hann sat einnig í stjórnum nokkurra borgaralegra og viðskiptatengdra fyrirtækja.

Kallaður til að vera sérstakt vitni Krists

Jeffrey R. Holland forseti BYU og eiginkona hans, Patricia, tala til nemenda. Jeffrey R. Holland var forseti Brigham Young háskóla frá 1980 til 1989.
Jeffrey R. Holland forseti BYU og eiginkona hans, Patricia, tala til nemenda. Jeffrey R. Holland var forseti Brigham Young háskóla frá 1980 til 1989.

Holland forseti varð aðalvaldhafi Sjötíu árið 1989 og hlaut ævilanga köllun sem postuli Jesú Krists fimm árum síðar. Holland forseti talaði á blaðamannafundi á Musteristorginu, sama dag og hann varð postuli, og greindi frá því hve skyndilega honum hefði borist sú köllun að helga það sem eftir væri ævi sinnar fullri þjónustu fyrir málstað Krists.

„Síðustu klukkustundir hafa verið næstum óbærilegar,“ sagði hann 23. júní 1994. „Ég fékk þetta símtal klukkan 7:30 í morgun. … [Howard W.] Hunter forseti veitti mér þessa köllun, setti mig í embætti í musterinu, gaf mér leiðbeiningar og veitti mér blessun mína. Hann gerði þetta allt. Hve innilega áhrifamikil leiðsögn hans og blessun var mér. … Meginábyrgð mín nú og aðalábyrgð mín  - í vissum skilningi öll ábyrgð mín - er að bera vitni um Drottin Jesú Krist. Sama hversu vanmáttugur mér finnst ég vera, þá er þetta ánægjulegasta, mest gefandi og mest spennandi verkefni sem nokkur maður getur fengið í þessum heimi. Ég helga líf mitt þessari viðleitni.“

Pat, sem alltaf hvatti hann, sagði á sama blaðamannafundi að trú Hollands forseta á Jesú Krist yrði hans mesti kostur sem postuli.

„Enginn nema [ég] veit hvers konar trú þessi maður hefur. Hún er hrein,“ sagði hún við blaðamennina. „Hann er auðmjúkur þjónn Drottins Jesú Krists.“

Og þannig var Holland forseti eftirlifandi áratugi lífs síns. Eins og allir postular gera, þá ferðaðist hann um heiminn. Þar á meðal hið óvenjulega verkefni að stjórna málefnum kirkjunnar í Síle í tvö ár (2002–2004). „Við urðum algjörlega ástfangin af Síle og sílensku þjóðinni og grétum og grétum þegar við fórum,“ sagði hann. „Þannig er það í kirkjunni. Það er fólkið, það er trúin, það er andlega reynslan og það eru tengslin sem gefast af því að fórna fyrir aðra.“

Meðal hinna mörgu verkefna Hollands forseta var að vera samstarfsmaður Russells M. Nelson forseta í fyrstu umfangsmestu ferð spámannsins sem leiðtoga kirkjunnar árið 2018 — 11 daga ferð til átta borga í Evrópu, Afríku og Asíu. Í nóvember 2023 varð hann svo starfandi forseti Tólfpostulasveitarinnar eftir andlát M. Russels Ballard forseta. Þegar Nelson forseti féll frá, varð Holland forseti, forseti Tólfpostulasveitarinnar.

Russell M. Nelson forseti og öldungur Jeffrey R. Holland horfa yfir Jerúsalem frá BYU Jerúsalemmiðstöðinni, þann 14. apríl 2018.
Russell M. Nelson forseti og öldungur Jeffrey R. Holland horfa yfir Jerúsalem frá BYU Jerúsalemmiðstöðinni, þann 14. apríl 2018.

Holland forseti heiðraði köllun Krists um að þjóna „frammi fyrir konungum og höfðingjum“ (Kenning og sáttmálar 1:23) á hrífandi og persónulegan hátt. Honum var til að mynda nokkrum sinnum boðið af Emmu Nicholson barónessu (meðlim í bresku lávarðadeildinni og stofnanda og stjórnarformanni AMAR stofnunarinnar) að koma til Windsor-kastala í London, til að ræða hvernig hjálpa megi nútíma flóttafólki að rísa ofar aðstæðum sínum. Barónessan sagðist hafa notið þess að ræða guðfræði við Holland forseta vegna þess að „hann er kennari“ og slíkar samræður væru „afskaplega mikilvægur“ hluti af starfi þeirra saman.

Síðari daga heilagir munu muna eftir hinum mörgu hrífandi, mælsku – og ætíð vongóðu – ræðum hans. Hann færði þeim ljós sem glímdu við myrka óvissuþætti Kóvid-19 heimsfaraldursins. Hann hafði samúð með þeim sem glíma við geðræn vandamál og opnaði sig jafnvel um óvænt „sálrænt áfall“ í eigin lífi. Hann talaði með beinum hætti um þann frið sem allir í heiminum geta fundið í Mormónsbók. Og viðeigandi var að sumar síðustu ræður hans fjölluðu um von á Krist.

„Sækið fram, staðfastir í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna,“ sagði Holland forseti við ungt fullorðið fólk um allan heim í janúar 2023 og vitnaði í ritningarvers í Mormónsbók. „Þetta vonarljós, sprottið af kærleika til Guðs og allra manna – það er það sem við óskum ykkur öllum á nýju ári. Með þessari björtu von fylgir hið óyggjandi hvísl að Guð elskar ykkur, að Kristur er málsvari ykkar, að fagnaðarerindið er sannleikur. Birta þess mun minna ykkur á að í fagnaðarerindinu er alltaf – á hverjum degi, í hverri klukkustund – nýtt tækifæri, nýtt líf, nýtt ár. Þvílíkt kraftaverk! Hvílík gjöf! Og vegna gjafar Krists, er hið besta í lífinu okkar, ef við staðfastlega höldum áfram að trúa og reyna og vona.“

Hvaða vonarboðskap sem hann miðlaði í aldarfjórðung sem postuli, þá var þungamiðjan alltaf fagnaðarerindi Jesú Krists.

„Lífið verður áskorun fyrir ykkur. Erfiðleikar munu koma. Harmur mun skella á,“ kenndi Holland forseti fylgjendum sínum á samfélagsmiðlum rétt eftir að Kóvid-19 heimsfaraldurinn hófst í mars 2020. „Hver sem stefna ykkur því er, farið þá fyrst til Jesú Krists. Gerið sáttmála við hann og haldið þá á ferðalagi ykkar.“

Emma Nicholson barónessa heilsar öldungi Jeffrey R. Holland þegar hann kemur í lávarðadeildina miðvikudaginn 10. júní 2015. Öldungur Holland varð fyrsti postuli Síðari daga heilagra til að tala í neðri deild þingsins.
Emma Nicholson barónessa heilsar öldungi Jeffrey R. Holland þegar hann kemur í lávarðadeildina miðvikudaginn 10. júní 2015. Öldungur Holland varð fyrsti postuli Síðari daga heilagra til að tala í neðri deild þingsins.

Ef til vill má rekja hvatningu Hollands forseta til að eiga svo persónuleg og innileg samskipti við alla – hvort heldur í eigin persónu, í ræðustólnum eða gegnum samfélagsmiðla – til þess sem var eftirlætis ritningarvers hans, Kenning og sáttmálar 81:5: „Ver þess vegna trúr. Gegn því embætti, sem ég hef útnefnt þér; styð þá óstyrku, lyft máttvana örmum og styrk veikbyggð kné.“

Holland forseti trúði því að sinnuleysi og misskilningur á gjöfum Guðs væru stærstu áskoranir okkar tíma. Af þessum sökum kenndi hann öðrum að „vera bænheitir, vera auðmjúkir, hlýðnir, leita vilja hans og leiða og þið munið vita nóg til að taka næstu skref út að ljósbrúninni, jafnvel eitt eða tvö skref út í myrkrið, og þá munið þið komast að því að ljósið kemur í næsta skrefi.“

Þegar Holland forseti leiddi fólk, skref fyrir skref, inn í ljós fagnaðarerindisins, varð hann sú tegund kennara sem Henry Adams lýsti, er skrifaði: „Kennari hefur áhrif á eilífðina; hann veit aldrei hvar áhrif hans taka enda.“

Jeffrey R. Holland forseti Tólfpostulasveitar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu í útsendingu, þar sem nýtt Æðsta forsætisráð var kynnt í Ráðstefnuhöllinni í Salt Lake City, Utah, þriðjudaginn 14. október 2025.
Jeffrey R. Holland forseti Tólfpostulasveitar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu í útsendingu, þar sem nýtt Æðsta forsætisráð var kynnt í Ráðstefnuhöllinni í Salt Lake City, Utah, þriðjudaginn 14. október 2025.