Boðskapur svæðisleiðtoga

Þakklæti greiðir leiðina að hásæti náðarinnar

Öldungur Miguel Ribeiro, Portúgal
Öldungur Miguel Ribeiro, Portúgal svæðishafi Sjötíu á Norður-Evrópusvæðinu

Áður en ég hlaut köllun sem svæðishafi Sjötíu, stóð ég frammi fyrir einum erfiðasta áfanga trúarferðar minnar. Fjárhagslegir erfiðleikar gerðu okkur ókleift að kaupa mat, svo við urðum að selja allar eigur okkar. Að verða vitni að því að eiginkona mín skildi við dýrmæta minjagripi frá ömmu sinni og móður var sérstaklega átakanlegt. Þar sem bíllinn var eldsneytislaus, gekk ég í gegnum bæinn í leit að veðlánabúð.

Á göngunni mundi ég eftir samtali við mjög góðan vin sem var að ganga í gegnum djúpstæðar áskoranir. Í tilraun minni til að hjálpa, ráðlagði ég honum að rækta með sér þakklæti. Svar hans snart í mér streng: „Til þess að ég geti verið þakklátur verð ég að hugsa um einhvern sem gengur í gegnum meiri erfiðleika en ég! Það er mjög erfitt að finna einhvern í þannig stöðu.“ Ég fann djúpan samhljóm með viðhorfi hans og fannst ég tilfinningalega fastur vegna þjáningar konu minnar og sorgar barna minna, þrátt fyrir að hafa sett traust mitt á frelsarann. Hann hafði sagt mér: „Þú ert minn” (1). Hann hafði útvalið mig með loforðum sínum til að vera „heilög þjóð fyrir Drottni Guði [mínum]” (2) og „hefja [mig] yfir allar þjóðir, sem hann hefur skapað“ (3). Ég hafði greitt tíund af trúfesti, fastað, beðið og unnið musterisverk, hinar fyrirheitnu „flóðgáttir himins“ (4) voru áfram lokaðar og mér fannst ég yfirgefinn.

Á augnablikum aukinnar þjáningar tók ég upp þá venju að leggja fram tvær grundvallarspurningar til hins himneska: „Ó, Drottinn, hvers óskar þú að ég geri? Hvers óskar þú að ég læri?“ Nánast samstundis kom upp hugsun:  „Og svo bar við, að hann reisti altari úr grjóti, færði Drottni fórn og flutti Drottni Guði vorum þakkir“ (5). Þetta leiddi til umhugsunar um neyð Lehís, sem, án þess að hafa unnið sér nokkuð til sakar, neyddist til að yfirgefa heimili sitt og skilja eftir sig eigur sínar, þ.m.t. „hús sitt og erfðaland, og gull sitt og silfur, sem og aðrar dýrmætar eigur og hafði ekkert með sér“(6). Eftir að hafa varið öllu lífi sínu í Jerúsalem, skildi Lehí eftir ævilanga drauma og ávexti erfiðis síns og stóð frammi fyrir að því er virtist óyfirstíganlegri áskorun. Samt var þakklæti meginreglan sem hann lifði eftir og leitaði hjálpræðis í. „Mikil eru verk þín og undursamleg, ó Drottinn, Guð almáttugur!“ (7)

Fyrir Lehí var þakklæti ekki háð aðstæðum; þetta var ákvörðun með sérstaka áherslu á Jesú Krist. Ég uppgötvaði því þakksamlega: „Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar, þótt ég gerði undirheima að hvílu minni, þá ertu einnig þar“ (8). Í raunum mínum hafði ég tileinkað mér að byggja daglega altari  þakklætis með bæn. Markmið mitt var að vera þakklátur án samanburðar, væntinga eða háð ytri aðstæðum – djúpstæð breyting á sjónarhorni.

Í upphafi hverrar bænar, beindi ég hugsunum mínum vísvitandi að lífi og þjónustu frelsara míns. Ferlið var umbreytandi. Að því meiri einlægni sem ég tjáði þakklætið, því meira bar andinn vitni um sannleika miskunnsemi og náðar. Með þessari iðkun öðlaðist ég vitnisburð um „ásetning þessarar síðustu fórnar“ (9) frelsara míns og að „iður hans eru full samúðar með (okkur)“ (10).

Hann þekkti mig fullkomlega í miskunnsemi sinni. Þegar ég gat tjáð þakklæti mitt, dýpkaði trú mín og sál mín gladdist. Ég komst að því að þessi daglegu altari þakklætis voru að ryðja brautina að hásæti náðarinnar (11). Við nutum bæði veraldlegra og andlegra blessana dagana sem fylgdu á eftir. En vegna alls sem ég hef gengið í gegnum, myndi ég ekki vilja skipta við neinn konung. Raunir mínar leiddu mig til að nálgast og þekkja frelsara minn Jesú Krist. Hann lifir!

  1. Jesaja 43:1 

  1. 5. Mósebók 7:6 

  1. 5. Mósebók 26:19 

  1. Malakí 3:10 

  1. 1. Nefí 2:7 

  1. 1. Nefí 2:4 

  1. 1. Nefí 1:14 

  1. Sálmarnir 139:8 

  1. Alma 34:15 

  1. 3. Nefí 17:6,7 

  1. Sjá Hebreabréfið 4:16