Ég ann sunnudögum, þótt ég sé önnum kafinn

Boðskapur svæðisleiðtoga

Öldungur Matthieu Bennasar, Frakklandi
Öldungur Matthieu Bennasar, Frakklandi svæðishafi Sjötíu

Ég ann sunnudögum, þótt ég sé önnum kafinn[1]

Þegar ég lauk grunnskóla, tóku við afar krefjandi ár til undirbúnings fyrir hina erfiðu frönsku námsbraut Grandes Ecoles. Við lok þessara krefjandi tveggja ára, tóku nemendur erfitt inntökupróf í þeirri von að fá inni í þessum afar virta skóla. Ég lagði hart að mér, líkt og allir aðrir samnemendur mínir. Nemendur læra í raun allan daginn og seint fram á kvöld. Mér varð fljótt ljóst að ef ég lærði ekki á sunnudögum yrði það mér til mikilla trafala að tveimur árum liðnum: Ég yrði þá eftirbátur samnemenda minna og drægist aftur úr í námi, sem svaraði til fjórtán vikna námstímabils. Þegar faðir minn sá að ég háði innri baráttu röksemdar og trúar, ræddi hann við mig á jetróískan hátt:  „Matthieu, það sem þú áformar að gera er rangt. Þú ættir ekki að vinna á sunnudögum.“ Í fyrstu stóð ég gegn þessari leiðsögn hans. Faðir minn vissi jú ekki hver ég væri í raun. Þegar storminn lægði ákvað ég þó að fara að leiðsögn hans. Því hef ég aldrei séð eftir. Að „annast ekki störf [mín]“[2] á hvíldardegi, reyndist mér ómetanlegt. Ég kom ekki aðeins úthvíldur í námið á mánudagsmorgnum, er samnemendur mínir virtust uppgefnir eftir stöðugan lærdóm helgarinnar, heldur urðu þessi ár líka afar mikilvæg fyrir mína andlegu framþróun. Ávinningur minn af því að sökkva mér djúpt í ritningarnar á sunnudögum, varð sá að mín andlega undirstaða varð sterkari á komandi árum.

Þegar þessum tveimur erfiðu árum lauk, tók ég hið fyrirætlaða próf og fékk nægilega góða einkunn til að komast í einn bestu skólanna sem mig hafði dreymt um, en ekki dottið í hug að ég kæmist í, jafnvel þótt ég hefði verið mun lakari en bestu nemendurnir. Þetta varð til að styrkja þann vitnisburð minn „að þeim, sem Guð elska, samverkar allt til góðs.“[3] Af þessari reynslu lærði ég að hvíldardagurinn veitti nauðsynlega sálarhvíld, sem samnemendur mínir höfðu ekki aðgang að. Líkt og Ísraelsmenn nærðust á manna í eyðimörkinni og tíndu ekki manna á hvíldardegi, þá lærðist mér að með því að treysta Guði og vinna ekki á sunnudögum, hlaut ég forskot en var ekki eftirbátur. Því með boðorðinu býr hann okkur leið.

Jesaja var vel ljóst að hvíldardagurinn væri feginsdagur og langt frá því að vera þungbær:  „Ef þú varast að vanhelga hvíldardaginn, varast að gegna störfum þínum á helgum degi mínum, ef þú kallar hvíldardaginn feginsdag, hinn helga dag Drottins heiðursdag og virðir hann svo, að þú framkvæmir ekki fyrirætlanir þínar, annast ekki störf þín né talar hégómaorð,  þá munt þú gleðjast yfir Drottni og þá mun ég láta þig fram bruna á hæðum landsins og láta þig njóta arfleifðar Jakobs föður þíns, því að munnur Drottins hefir talað það.“[4]

Hvíldardagurinn sér okkur fyrir óviðjafnanlegri hvíld frá áhyggjum okkar róstusama heims og áreiti fjölmiðla. Á honum hægjum við á okkur og förum í heim ígrundunar. Hvíldardagurinn er helgur tími, rétt eins og musterið er helgur staður. Á honum einblínum við á fjölskylduna, fögnum, tengjumst og tilbiðjum saman. Á honum hugum við að andlegri framþróun, vitnum og styrkjum vanmáttug hné. Hvíldardagurinn gæti verið okkar besti vikulegi undirbúningur til að lifa líkt og himneskar verur, uns við lifum varanlega í himnesku ríki[5]. Þegar allt kemur til alls, þá snýst hvíldardagurinn um að taka á móti hinu dásamlega sakramenti, er andi okkar á samfélag við Drottin og við endurnýjum sáttmála okkar og hljótum græðandi sálarsmyrsl. Á hvíldardegi eigum við samfund með Drottni.

Ég þakka Drottni fyrir hvíldardaginn. Hann er sannlega feginsdagur.



[1] Öldungur Jeffrey R. Holland, á alþjóðlegum leiðtogafundi, hringborðsumræður (9. febrúar 2008)

[2] Jes 58:13

[3] Róm 8:28

[4] Jes 58:13-14