Kirkja Jesú Krists hinna síðari daga heilögu heldur kirkjusamkomur heima

Kirkjubyggingin í Garðabæ

Grundvallartrú Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er ekki aðeins stunduð í kirkjubyggingum eða safnaðarheimilum á sunnudögum, heldur ætti iðkun trú meðlimanna og endurspeglun kristinna gilda í þeim að vera hluti af daglegu lífi á hverju heimili.

Guðsþjónusta á sunnudögum er mikilvægur hluti trúar okkar og stuðningur við að lifa trúna í daglegu lífi heima. Kirkjustarfið er allt sjálfboðavinna þar sem allir meðlimir kunna að vera beðnir um að leggja til með styttri eða lengri ræðu á kirkjusamkomum sem haldnar eru á sunnudögum. Kirkjan hefur í mörg ár unnið að áætlunum sem styðja við heimanám í ritningunum. Þetta gerir það aðeins auðveldara fyrir kirkjuna að takast á við þessa gjörbreyttu tíma, hvað varðar að koma saman og halda guðsþjónustu.

Til þess að fylgja fyrirmælum íslensku ríkisstjórnarinnar um samkomubann og halda sér frá hvor öðrum, hafa meðlimir kirkjunnar safnast á heimilum sínum undanfarna sunnudaga og haldið heimasamkomur, jafnvel áður en samkomubannið tók gildi. Á heimilum þar sem það var mögulegt, var sakramentið þjónustað, en það er heilagur vikulegur viðburður í kirkjunni sem endurnýjar skírnarsáttmála okkar og beinir athygli okkar að Kristi. Á einum sunnudegi var boðin upp á útsendingu í gegnum internetið, þar sem ræður systurtrúboða var varpað út við góðar móttökur, en að öðru leiti hafa meðlimir sjálfir fylgt vikulegri námsáætlun sem kallast Kom fylg mér.

„Ég er svo þakklátur fyrir innblásnar ákvarðanir spámannsins og allra sem þjóna með honum, að koma fram með heimanámsáætlunina Kom fylg mér“, segir Ólafur Einarsson úr Reykjavíkurgrein. „Á slíkum stundum sem við nú förum í gegnum, værum við hugsanlega týnd ef við hefðum ekki þetta utanumhald ritninganáms. Ég hef gert mér grein fyrir því að í svona aðstæðum er fólgin ákveðin áskorun. Við sem einstaklingar og fjölskyldur þurfum að ákveða hverjum við ætlum að þjóna, hvort við erum Síðari daga heilög eða ekki. Í raun erum við í sporum Jósúa er sagði: ‚Kjósið þá í dag, hverjum þér viljið þjóna ... en ég og mínir ættmenn munum þjóna Drottni.‘ (Jósúa 24:15).“

 „Heimakirkja hefur gengið vel hjá okkur“, segir Áslaug Þórðardóttir úr Selfossgrein. „Við klæðum okkur upp eins og við værum að fara í kirkju. Við förum með bænir og syngjum og höldum boðskap. Ég er þakklát fyrir að hafa fagnaðarerindið, að menn almennt hafi prestdæmið til guðsþjónustu og fyrir að hafa þennan möguleika á að halda hvíldardaginn heilagan, hvort sem maður er heima eða ekki.“

Áslaug segir að hún styrkist í trú sinni í samfélagi með öðrum og saknar þess að hitta ekki annað fólk á sunnudögum, en bendir á að „þetta sé tímabundið en vona að þetta fái fólk til að íhuga, hlusta og hugsa um lífið og tilganginn. Okkur hefur verið kennt að vera undirbúin, bæði stundlega og andlega. Við þurfum að hlusta meira á spámanninn og er spennt að heyra hvað hann mun segja á ráðstefnunni.“

Á þessari helgi verður nefnilega haldin aðalráðstefna kirkjunnar sem send verður út um allan heim fyrir þá 16 milljón meðlimi hennar og öllum þeim öðrum sem vilja fylgjast með.

Í fleiri áratugi hafa þessar ráðstefnur verið í beinni útsendingu um allan heim með gervihnattasjónvarpi og einnig á vefnum og samfélagsmiðlum. Að þessu sinni mun hins vegar engin safnast saman til ráðstefnunnar, hvorki í Ráðstefnuhöllinni, né í neinum þeirra fjölda kirkjubygginga víða um heim þar sem hægt hefði verið að safnast saman til að fylgjast með ræðum leiðtoga kirkjunnar. Tónlistina mun Laufskálakórinn á Musteristorginu annast, en að þessu sinni verða notaðar upptökur sem þegar eru til. Fólk mun fylgjast með þessari sögulegu ráðstefnu, hver á sínu heimili, með hjálp tækninnar.