Ávarp NAACP ráðstefnunnar 

Russell M. Nelson forseti Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu flutti þetta ávarp á árlegri ráðstefnu landssamtaka til framdráttar blökkufólki (NAACP), 21. júlí 2019, í Detroit, Michigan.

Nelson forseti talar

Kæru vinir mínir, ég finn til auðmýktar yfir því boði að vera meðal ykkar.  Í yfir heila öld hafa samtökin NAACP helgað sig því að bæta líf fólks og samfélagið allt.  Þið hafið gert margt til að vernda og liðsinna ótal einstaklingum.  Háverðugar hugsjónir ykkar eru vissulega hvetjandi! 

Á síðasta ári komu leiðtogar NAACP – undir forustu nefndarformannsins, Leons Russell, og nefndarmeðlima – til Salt Lake City.  Ráðgjafar mín tveir og ég sjálfur – Æðsta forsætisráð Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu – nutum þeirra forréttinda að eiga fund með ykkur.  Tími okkar saman einkenndist af gagnkvæmri virðingu og löngun til að finna samstarfsgrunn að því að sameina krafta okkar við að hjálpa fleira fólki. 

Á fjölmiðlaráðstefnu að þeim fundi loknum, útskýrði ég að grundvallarkenning og hjartans sannfæring trúar okkar, væri sú að allir menn væru börn Guðs.  Við trúum sannlega að við séum bræður og systur – öll hluti af sömu guðlegu fjölskyldunni. 

Á þessari sömu fjölmiðlaráðstefnu, hvöttum ég og Derrick Johnson allar þjóðir, samtök og stjórnvöld til að stuðla að aukinni gæsku, draga úr hverskyns fordómum og leggja áherslu á sameiginleg áhugamál okkar allra. 

Við einfaldlega reyndum að byggja brýr samvinnu, fremur en að reisa veggi aðskilnaðar. 

Líkt og skráð er í Mormónsbók (sem við lítum á sem ritningu í samfélagi við Biblíuna), þá býður frelsarinn „öllum sem einum að koma til sín og verða gæsku sinnar aðnjótandi. Hann neitar engum að koma til sín, hvorki svörtum né hvítum, ánauðugum né frjálsum, karli né konu …, allir eru jafnir fyrir Guði“ (2. Nefí 26:33). 

Ég endurtek síðustu orðin: „Allir eru jafnir fyrir Guði.“  Þið sem eruð saman komin í þessum sal, keppið að því að gera þennan himneska sannleika að jarðneskum veruleika.  Ég hrósa ykkur fyrir það.  Okkur er þó ljóst, sem samfélag og land, að við höfum ekki náð þeirri einingu og sameiginlegu virðingu sem gerir hverjum karli og konu og hverjum pilti og stúlku kleift að verða allra besta útgáfa sjálfs sín. 

Lækning kvilla okkar var lýst af meistaralækninum, Jesú Kristi.  Þegar ögrandi faríseanir skoruðu á frelsarann að tilgreina æðsta boðorð lögmálsins, var svar hans afar minnisstætt og skorinort.   Það var fyllt sannleika sem leiðir til gleðiríks lífs.  Hann bauð okkur fyrst að elska Guð af öllu hjarta og síðan að elska náunga okkar eins og okkur sjálf.  (Sjá Matteus 22:35–39.) 

Forseti ykkar, Derrick Johnson, sýndi nýlega hvað felst í næstæðsta boðorðinu.   Þegar Johnson forseti tók á móti viðurkenningu fyrir þjónustu við almenning, fyrir hönd NAAPC samtakanna, sem veitt voru af Rekstrarfræðifélagi Brighams Young háskóla, sagði hann að hann hefði verið spurður af hverju hann tæki á móti viðurkenningu frá meðlimum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.  Hverju svaraði hann?  „Af því að þeir eru náungi okkar.“ 

Þetta var djúphugsað svar. 

Við erum öll tengd böndum og höfum þá guðlegu ábyrgð að stuðla að betra lífi þeirra sem umhverfis eru.  Við þurfum ekki að vera eins eða líta eins út til að elska hvert annað.  Við þurfum ekki einu sinni að vera sammála til að elska hvert annað.  Ef endurvekja á von gæsku og skilning mannkyns, þá verður hún að hefjast hjá hverju okkar, einu í senn. 

Ég hef fylgst með áhrifum slíkrar manneskju  í heimaborg minni, Salt Lake City, Utah.  Hinn virðingarverði France Davis, prestur í baptistakirkjunni í Calvary-trúboðinu til 45 ára, hefur helgað lífi sitt þeirri þjónustu.  Hann var virkur í mannréttindamálum og tók þátt í mannréttindakröfugöngunni í Washington D.C. árið 1963 og kröfugöngunni frá Selma til Montgomery árið 1965.  Yfirlætislaus reisn hans og óþreytandi boðun um einingu, hefur bætt til mikilla muna uppbyggingu samfélags okkar. 

Fyrir mögum árum naut ég þeirra forréttinda að vera gestgjafi séra Davis á hljómleikum Laufskálakórsins við Musteristorg.   Við erum jú nokkuð stolt af Laufskálakórnum, sem í raun er velþekktur um allan heim.  Þegar hljómleikunum lauk, spurði ég séra Davis að því hvað honum hefði fundist um frammistöðuna.  „Þetta var mjög gott,“ sagði hann vingjarnlega, „ en andinn var ekki nægilega sterkur.  Ef þú vilt upplifa andann í tónlist, þá skaltu koma í kirkjuna mína.“ 

Af því leiddi að ég og eiginkona mín þáðum einmitt boðið.  Hann hafði rétt fyrir sér.  Kraftinn í kór baptistakirkjunnar í Calvary var vel þess virði að upplifa.   Þótt tónlistarsmekkur okkar gæti verið ólíkur, þá verð ég að segja að kirkjan hans hefur áþreifanlega auðgað borgina okkar. 

Gott samfélag hefst einmitt með slíkum samskiptum; með því að elska náunga okkar; með því að virða og elska hvert annað.  Þessi andi er að baki samstarfi NAACP og Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. 

Eins og ykkur gæti verið kunnugt, þá hófst samband þessara tveggja aðila ekki með fundum síðasta árs í Salt Lake City.  Ári áður hafði Derrick Johnson átt fund með öldungi Jeffrey R. Holland, í Tólfpostulasveitinni, kirkjulegum samstarfsmanni mínum.  Þeir voru í Jackson, Mississippi, að skoða heimili mannréttindapíslarvottsins og hetjunnar Medgars Evers.  Medgar Evers var sannur föðurlandsvinur.  Hann lét lífið í nafni frelsis. 

Johnson forseti og öldungur Holland stóðu hlið við hlið og ræddu saman í skrifstofu NAACP, í byggingunni sem Evers starfaði eitt sinn í sem svæðisfulltrúi NAACP samtakanna.  Eftir þessa fyrstu heimsókn í Mississippi, var gerð áætlun um að endurgera skrifstofu Medgars Evers, til að varðveita enn frekar mikilvæga arfleifð hans. 

Að því kom svo að svæðismeðlimir NAACP störfuðu saman með meðlimum Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu við að endurgerð veggja, lagningu nýs teppis og aðrar endurbætur. 

Árið 1963, eftir dauða Medgars Evers, vegsömuðu syrgjendur hann með þessum orðum í 1. Jóhannesarbréfinu 4:20: „Ef einhver segir: ,Ég elska Guð,‘ og hatar bróður sinn, sá er lygari.  Því að sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð.“ 

Æðsta boðorðið – um að elska Guð okkar – er órjúfanlega tengt við næstæðsta boðorðið, um að elska náunga okkar.  Saman getum við sýnt öllum börnum Guðs þessa elsku – bræðrum okkar og systrum. 

Ég bið þess, sem forseti Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, að við megum gera stöðugt meira af því að kalla hvert annað kæra vini.  Megum við keppa að því að gera okkur besta við að halda æðstu boðorðin tvö – að elska Guð og sérhvert barna hans.  Megum við snúa bökum saman við að lyfta bræðrum okkar og systrum hvarvetna, á allan þann hátt sem við getum.  Á þann hátt yrði heimurinn aldrei samur.  Kæru vinir mínir, ég þakka ykkur fyrir. 

NAACP
Fólk gengur
Handaband
Úr salnum
Nelson forseti í púlti
Kveðjur